Reynslusögur

Hér birtum við reynslusögur af hármissi og er öllum velkomið að senda okkur sínar sögur og við birtum þær hér.

„Ég hef  verið með blettaskalla síðan ég var 17 ára, hárgreiðslukona fann fyrsta blettinn þegar ég fór í í klippingu, en blettaskalli lýsir sér þannig að það myndast skallablettir ýmist litlir eða stórir og er mislengi að vaxa hár í þá, í suma kemur hár fljótlega en svo getur maður verið með sama blettinn lengi án þess að það vaxi í þá hár aftur.

En ef illa fer getur allt hárið farið af einnig öll líkamshár, sem ég lenti í þegar ég var búin að vera með bletti alltaf annað slagið í rúmlega tuttugu ár og það er lítið hægt að gera við þessu, það er hægt að sprauta sterum í blettina ef þeir eru litlir sem virðist stundum virka svo er til krem sem hægt er að bera á blettina en ekkert af þessu er góð meðferð sem virkar pottþétt , það er alltaf verið að rannsaka þetta en engin lausn er ennþá fundin og ekki er vitað af hverju þetta gerist en hársekkirnir deyja tímabundið og stundum lifna þeir við aftur en í einstaka tilfellum gerist það ekki aftur og viðkomandi getur átt  það á hættu að fá hárið aldrei aftur, mig minnir að ef hárið er ekki komið aftur eftir ár er ólíklegt að það komi aftur.

Ég fer að fá stóra bletti sem bara stækka og stækka og á endanum er ekkert að gera en að raka það litla sem var eftir af, vinkona mín sem er hárgreiðslukona rakaði lufsurnar burt og eftir stóð ég með beran skallann, svo þegar tíminn líður fara öll líkamshár að detta af nema augnhárin fóru ekki, sem betur fer fékk ég að halda þeim, augabrúnirnar teiknaði ég á með blýanti og endaði þetta þannig að það var ekki stingandi strá á líkamanum, hausinn á mér var þannig að það var eins og ég hefði bónað skallann, allsber og glansandi.

Það er alveg ótrúlegt að þegar maður missir  hárið þá sér maður hvað það skiptir svakalega miklu máli að hafa hár á hausnum, en sem betur fer fór þetta mér ekkert illa þannig að ég var ekkert feimin að vera með beran skallann, og héldu sumir að ég hafði rakað af mér allt hárið, en held ég að það væri það síðasta sem ég myndi gera,þó að maður hafi verið með ýmsar útgáfur að klippingu og lit í gegnum tíðina.

Ég gat fengið tvær fríar hárkollur á ári sem ég að sjálfsögðu nýtti með keypti eina stutta og eina siða sem ég notaði ef ég var að fara eitthvað fínt út ,en annars var ég mikið bara með klúta og húfur og oft svaf ég með húfu því mér var oft hrikalega kalt á hausnum,en eitt var mjög jákvætt og líka svolítið skemmtilegt við þetta, var að ef ég var að fara eitthvað út að skemmta mér og ætlaði að nota kolluna þá fór ég með hana til vinkonu minnar hárgreiðslukonunnar sem greiddi henni fyrir mig deginum áður svo smellti ég bar á mig kollunni og var tilbúin með þessa fínu greiðslu án fyrirhafnar þurfti ekki einu sinni að mæta á staðinn.

En fljótlega eftir að ég missi allt hárið ákváðum við fjölskyldan að fara til Portúgals með vinafólki okkar og dvelja það í þrjár vikur.

Hótelið var mjög fínt, flottur garður og lífið bara yndislegt eins og gengur og gerist þegar sólin og sumarið leikur við mann, við vorum mikið í garðinum með börnin okkar yfir daginn sem dunduðu sér í sundlauginni.Ég var ekkert að fela það að ég væri sköllótt og lét sólina skína á skallann annað slagið og leið bara vel með það.

Einn morguninn þegar nokkuð er liðið á fríið er bankað í íbúðinni okkar og maðurinn minn fer til dyra og þar stendur farastjórinn fyrir utan frekar alvarlegur og spyr hvort hann megi koma inn, hann kemur inn í herbergið okkar og biður okkur að senda börnin fram hann þurfi að ræða við okkur, okkur bregður mikið og fyrsta sem mér dettur í hug er að það hefur eitthvað hræðilegt gerst heima á Íslandi, en þá spyr hann mig af hverju ég sé sköllótt og ég verð mjög hissa á þessari spurningu en útskýri fyrir honum hvað sé í gangi, þá segir hann okkur það að það gangi saga á hótelinu um það að ég þjáist að portúgölskum sjúkdómi (sem átti að hafa verið mjög skæður  á árum áður í Portúgal)sem er bráðsmitandi og hann væri þannig að fólk missi allt hárið, og kallaðist geitasjúkdómur og átti minnir mig að fylgja því einver sár á hausnum en minn skalli var glansandi og fallegur ekki eitt einasta sár,  og nú þegar höfðu ein portúgölsk hjón yfirgefið hótelið útaf þessu,þegar þarna var komið vissi ég ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta,aðra ein vitleysu hef ég ekki heyrt(vinur okkar sem var með okkur var líka nauðasköllóttur en engin athugasemd var gerð við það) og var þetta komið útí það að til að róa gestina á hótelinu væri nauðsynlegt að senda til mín læknir til að skoða mig og ganga í skugga um hvað væri í gangi,ég var svo hissa ég hélt hreinlega að þetta væri djók,en fór þá að hugsa til baka og sá þá að þegar ég var í garðinum að fólk forðaðist mig t.d ef ég var í röð við barinn þá passaði fólk sig á því að vera sem lengst í burt frá mér, og fólk forðaðist okkur og horfði mikið,en ég sá það ekki þá og var ekkert að spá í það.

Ég gat ekkert annað gert í stöðunni en að samþykkja það að læknirinn kæmi og kíkti á mig, þó að mér væri það þvert um geð.

Og uppá herbergi kemur til okkur ungur og myndarlegur læknir sem tók þessu nú ekki mjög alvarlega og fannst þetta allt hálf skrítið skoðar á mér höfuðið og að sjálfsöguð staðfestir það að ég þjáist ekki að hinum hræðilega portúgalska geitasjúkdómi.

Þegar þetta er afstaðið langaði mig mest að skrá mig út af hótelinu og krefjast þess að ferðaskrifstofan reddaði mér öðru hóteli og það strax, ég var svo hrikalega sár og reið, sérstaklega yfir fávisku fólks,það hafði  myndaðist eitthver múgæsingur og fólk var búið að flýja hótelið útaf mér, ég átti bar ekki til orð.

En við ræddum málin og ákváðum í sameiningu að láta þetta ekki skemma restina af skemmtilega fríinu okkar og gera bara gott úr þessu.

Þannig að við förum útí garð og höfuð það bara kósý eins og vanalega og þegar við komum upp á herbergi eftir daginn bíður mín þessi líka risa blómaskreyting ásamt ýmsu öðru góðgæti og kort með afsökunarbeiðni frá hótelinu,einnig fengum við frítt út að borða frá ferðaskrifstofunni,þannig að það voru allir að gera sitt besta til að reyna að bæta mér upp þessa skrítnu lífsreynslu.

Oft höfum við gert grín að þessu í gegnum árin og hlegið mikið að því  þegar ég fékk portúgalska geitasjúkdóminn.

Í dag liggur blettaskallinn niðri og er ég með þykkt og fallegt hár,og vona ég að hann láti ekki aftur á sér kræla,en ef það gerist fer ég allavega ekki í sumarfrí til Portúgals.“ Fanney Sif

 

„Árið 1996 varð ég fyrst vör við skallabletti.

Þeir komu fyrst sem hækkun á bak við eyrun. Ég var ófrísk af mínu öðru barni og áleit að þetta væri bara einhver fylgikvilli meðgöngunnar og pældi ekki mikið meira í þessu. Meðgangan var ekki létt og ég varð fyrir hrikalegu áfalli þegar ég var komin ca. 3-4 mánuði á leið. Eftir að barnið var fætt fóru að myndast fleiri blettir hér og þar á höfðinu og þá leitaði ég til læknis,  og var álitið sem svo að þetta væri stress og/eða áfallseinkenni og að þetta ætti að lagast með tímanum.

Þegar á leið fór ég í hinar ýmsu meðferðir við þessu en fékk aldrei neina skýringu hvað þetta væri.

Fyrst fór ég í sterasprautur sem mér fannst vera mjög sársaukafull meðferð og hætti, því ég vissi að þetta væri ekki lækning heldur bara til að hárið vex hraðar.

Ég fékk síðan að heyra að þetta væri svona slæm vöðvabólga að það væri ekki nægilegt blóðflæði til höfuðs sem varð til þess að ég fór í nudd.

Ég eyddi heilmiklum peningum í nudd, sérfræðinga og  hinar ýmsu lækninga en ekkert gekk.

Þegar ég flutti til Danmerkur árið 2005 fór ég til sérfræðings þar. Ég prufaði leysigeislameðferð og fékk svo rótsterkan áburð til að bera í hársvörðinn. Ekkert af þessu gekk.

Ég flutti aftur heim til Íslands árið 2009 og leitaði þá til hans Birkis Sveinssonar húðsjúkdómalæknis og fékk þá loksins heiti og skýringu á þessu. Þetta er Alopecia areata eða sjálfsofnæmi. Birkir frysti blettina í 1 og ½ ár með tilheyrandi kostnaði og það endaði með þvi að ég hætti allri meðferð, því mér var orðið ljóst að það væri engin lækning á þessu og að þetta yrði bara að hafa sinn gang.

Enn í dag þoli ég ekki að geta ekki verið með slegið hárið því það glennist alltaf frá blettunum, og eins þegar ég er með marga og/eða stóra bletti að ég er alltaf að gá hvort það glennist frá í taglinu og líð síðan vítiskvalir þegar ég sé að svo er. Þá fer ég að spá svo mikið í það hversu lengi ég er búin að vera svoleiðis og hversu margir eru búnir að sjá glitta í skallabletti á hausnum á mér!

Ég er farin að efast um að ég sætti mig við þetta eða hætti að vera feimin við þetta útá við.“ Þórunn Þorleifsdóttir


“Ég tók eftir fyrsta skallablettinum í byrjun nóvember 2010, það var maðurinn minn sem benti mér á hann. Bletturinn var eins og tíkall efst á kollinum. Ég var búin að taka eftir því að ég var farin að fara mjög mikið úr hárum en ég hef alltaf haft mjög þykkt og mikið hár. Datt samt ekki í hug að þetta myndi enda svona.

Þegar maðurinn minn benti mér á skallablettinn þá voru fyrstu viðbrögðin mín að hlægja, mér fannst þetta svo fáránlegt, hvað var eiginlega að gerast…… Ég fór þá að skoða hárið betur og tók eftir því að hárið undir, næst hálsinum að aftan, var eiginlega allt horfið. Ég fékk mikið sjokk yfir þessu og pantaði mér tíma hjá húðsjúkdómalækni. Hann sagði mér að best væri að gera ekki neitt og að hárið kæmi líklega aftur eftir 4-6 mánuði. Ég man að mér fannst 4-6 mánuðir óendanlega langur tími, hvernig átti ég að fela skallablettina í svona langan tíma. Hann benti mér síðan á að ég gæti prófað að bera steraáburð í hársvörðin og sjá hvort það hefði áhrif sem og ég gerði. Ég fór einnig til náttúrulæknis í ýmsar meðferðir, prófaði að bera Thymuskin hárkúrinn í hársvörðinn í nokkra mánuði, einnig prófaði ég Galvanic spa með ambúlum í nokkra mánuði en ekkert af þessu hefur orðið til þess að hárið byrji að vaxa á ný.

Tveimur vikum eftir að ég tók eftir fyrsta skallablettinum þá fór ég í 4ja daga ferð erlendis. Daginn sem ég kom heim þá byrjaði ég að fá mikla hjartsláttaróreglu (ég hef aldrei kent mér til í hjartanu) sem var mjög óþægilegt. Ég var sett á hjartalyf og nokkrum mánuðum síðar í hjartaþræðingu en sú aðgerð heppnaðist ekki nægilega vel þannig að ég er enn á hjartlyfjum. Nú veit ég ekkert hvort að þetta tengist hármissinum en þetta byrjaði allt á sama tíma.

Það er vert að minnast á það að í byrjun október 2010, þegar ég byrjaði að missa hárið, þá flutti ég í leiguhúsnæði sem síðar kom í ljós að bar myglusvepp og mikinn raka. Þann tíma sem við bjuggum í þessu húsnæði varð sonur minn skyndilega mikið veikur en hafði áður verið mjög hraustur strákur.

Á nokkrum vikum missti ég allt hárið á kollinum. Í janúar 2011 var ég búin að fá nóg af því að taka heilu lúkurnar af hári úr mér eftir hverja sturtuferð þannig að ég ákvað að láta klippa hárið alveg stutt. Í byrjun febrúar 2011 var hárið svo alveg farið fyrir utan eitt og eitt strá (kannski 5-6) sem tóra enn á kollinum. Ég fékk mér strax hárkollu og sagði engum frá hármissinum nema nánustu fjölskyldumeðlimum. Vinkonur mínar héldu að ég væri komin með rosa fína nýja klippingu og ég hélt því þannig í dágóðan tíma þar til ég hafði kjark til að segja þeim frá öllu saman. Þó það hafi verið mjög erfitt þá fylgdi því mikill léttir fyrir mig þegar ég sagði þeim frá þessu því mér þótti það mjög íþyngjandi að halda þessu svona leyndu fyrir mínum nánustu.

Við fjölskyldan ákváðum að flytja úr leiguhúsnæðinu í byrjun febrúar 2011 þar sem okkur grunaði að myglusveppurinn gæti verið orsökin fyrir þessu, við getum þó engan vegin staðhæft það. Drengurinn minn hætti að vera veikur um leið og við fluttum út en ég var aðeins lengur að ná betri heilsu.

Á þessum tíma datt mér ekki í hug að augabrúnirnar og augnhárin myndu líka fara en um vorið byrjuðu þau að hverfa og voru horfin um sumarið. Það þótti mér eiginlega verst, þ.e. að missa augabrúnirnar, því það breytir mjög útlitinu. Ég náði heilsu aftur um sumarið, hjólaði og stundaði líkamsrækt.

Ég er nú búin að láta tattoo-vera augabrúnir og augnlínu sem mér finnst mun þægilegra en að þurfa sífellt að vera að mála þær á mig. Ég nota mikið hárkollu þegar ég fer út, nema ég sé með húfu eða slæðu sem mér fannst gott að nota í sumar. Þegar ég fer í sund, út að hjóla eða í líkamsrækt þá nota ég sundhettu/buff/höfuðfat.

Í dag tala ég frekar opið um hárleysið við þá sem ég þekki en er þó ekki að nefna það að fyrra bragði við þá sem ég þekki lítið. Ég er farin að venjast því betur að hafa hárkollu þegar ég fer út og er ekki eins meðvituð um það eins og fyrst. Í dag er ég sáttari með hárleysið en ég var í fyrstu, vonast mikið til þess að fá hárið aftur og mun halda áfram að leita lausna en reyni að láta það stjórna lífi mínu sem minnst á meðan.“ Berglind Guðjónsdóttir


,,Ég fékk fyrsta skallablettinn vorið 1992. Hann var eins og tíkall ofarlega á höfðinu og ég fékk nánast taugaáfall. Ég var í námi á Ítalíu á þessum tíma en fór heim um sumarið. Hárið óx aftur í blettinn og ég hélt að þetta væri búið. Um haustið fór ég aftur til Ítalíu og hélt náminu áfram en það var næsta sumar sem hárlosið byrjaði fyrir alvöru. Þá var ég að vinna á Íslandi en ætlaði að fara aftur út um haustið og taka átta ára gamlan son minn með mér. Hann hafði verið á Íslandi þessa tvo vetur sem ég var í Mílanó í skóla en nú vildi ég leyfa honum að kynnast lífinu á Ítalíu. Ég hafði hins vegar miklar áhyggjur af því að ég væri ekki að gera það rétta, að þetta yrði of erfitt fyrir hann. Ég hafði líka áhyggjur af fjármálunum, áhyggjur af því að finna ekki íbúð fyrir okkur þar sem væri góður skóli fyrir hann, áhyggjur af því að taka hann frá fjölskyldunni, áhyggjur af því  að hann yrði fyrir slysi….ég hafði áhyggjur af öllu og í fyrsta skipti á ævinni svaf ég ekki fyrir áhyggjum. Ég fékk stóran skallablett hægra megin á höfuðið og fleiri litlir bættust við. Á þeim yfirsnúningi sem ég var tók ég þann kostinn að láta sem ekkert væri.

Ég fór ekki til læknis og um haustið þegar við fórum til Mílanó fór öll mín orka í að finna íbúð, senda son minn í skóla og hefja mitt nám aftur. Ég lokaði augunum fyrir því sem var að gerast en þegar ég gat ekki lengur greitt yfir blettina keypti ég mér húfu og var með hana í skólanum og þegar ég fór út. Svo kom að því að ég fékk vinkonu mína til að raka af mér lufsurnar sem eftir voru og þó það væri sárt var léttirinn meiri að vera ekki stöðugt með lúkurnar fullar af hári. Hárið óx sumstaðar en það komu alltaf nýjir blettir. Ég var áfram með húfur opinberlega og gerði ófáar tilraunir til að sauma fallegar húfur.

Um sumarið lauk ég náminu og við fluttum aftur til Íslands. Ég held að undir niðri hafi ég haldið að þá yrði allt gott og ég fengi hárið aftur. Ég fór fljótlega til húðsjúkdómalæknis sem prófaði að frysta blettina, það gerði ekkert gagn. Ég fór að rýna í mataræðið og óhefðbundnar lækningar. Ég komst að því að tvær frænkur mínar í föðurætt höfðu fengið blettaskalla en eftir sterasprautur löguðust þær. Ég þótti ekki góður kandídat í sprautur því ég var með of mikið af blettum. Smám saman gafst ég upp á að leita mér lækninga. Ég vildi ekki nota hárkollur, gat ekki hugsað mér að vera stöðugt að fela ástandið. Það kom að því að ég rakaði aftur á mér höfuðið og fór mjög meðvitað að ganga um án höfuðfata. Ég fór í bæinn og gekk niður Laugaveginn með beran skallann og dúndrandi hjartslátt. Það var ekki auðvelt en vandist smám saman.

Árið 2001 fór ég með son minn til húðsjúkdómalæknis sem bauð mér að gangast undir meðferð sem hann var að prófa. Ég hugsaði mig um og ákvað svo að láta á þetta reyna. Meðferðin fólst í því að pensla blettina með baneitruðu efni (DPCP, diphencyprone) sem framkallaði ofnæmi svo frumurnar hættu að ráðast á sjálfar sig og fóru að berjast við þennan nýja óvin. Ég sýndi fljótlega góð viðbrögð við meðferðinni og eftir hálft ár var hárið farið að vaxa nokkuð vel. Ári síðar sást ekki lengur að ég væri með blettaskalla  og ég vonaði að ég væri loksins  að læknast. Meðferðin var dýr og ekki án aukaverkana, útbrotin orsökuðu kláða og eitlar á hálsinum stækkuðu. Auk þess hélt ég alltaf áfram að fá bletti. Ég tók mér nokkrum sinnum hlé frá meðferðinni en þá sótti alltaf í sama farið. Ég var samt farin að hugsa alvarlega um það hvort ég vildi vera í þessari meðferð alla ævi án þess að vita hverjar aukaverkanirnar væru þegar meðferðinni var einfaldlega hætt. Þetta var árið 2006 og síðan þá hef ég verið með minn blettaskalla, hárið kemur og fer en hefur aldrei allt farið og aldrei orðið alveg gott heldur.“ Þuríður Helga Jónasdóttir

 

10var við Reynslusögur

 1. Þóra Björg sagði:

  Dömur mínar takk fyrir þessa síðu,
  það er mjög gott að sjá það svart á hvítu að ég er ekki ein um að vera með skallabletti, hef fengið þá af og til í mörg ár þá aðallega í vöngunum, núna er ég með svakalegann blett ofaná höfðinu búin að vera að greiða yfir alltaf, að skoða hvort hann sé ekki að minnka, og hreint út sagt alveg að verða brjáluð, búin að fara til heimilislæknis, húðsjúkdómalækna, grasalæknis og enginn virðist geta hjálpað mér.
  Takk aftur fyrir frábært framtak, ég kem til með að fylgjast með af áhuga.
  kv. Þóra Björg

  • blettaskalli sagði:

   takk fyrir þetta Þóra Björg.
   Við ætlum að halda áfram ótrauðar og vonumst til að fá áfram viðbrögð frá fólki eins og þér. Til þess er leikurinn gerður. Vonandi færðu einhverjar upplýsingar hér sem nýtast þér og ekki síst stuðning.

   kær kveðja,
   Helga og Begga

 2. Elísabet Jónsdóttir sagði:

  Frábært framtak. Við erum klárlega margar að kljást við þetta og leita endalaust að lausnum sem virðast ekki vera til….. Takk takk, kveðja Elísabet

  • blettaskalli sagði:

   takk sömuleiðis Elísabet fyrir að skrifa, það er okkur mikils virði að fá viðbrögð hér til að vita að við séum á réttri leið.
   Fylgstu með áfram!

   kv.
   Helga og Begga

 3. Brynja sagði:

  Sjálförugg skollótt kona er falleg!!!

  Ég er búin að vera með skallabletti í 20 ár, frá því að ég var barn. Það var svo sem ekki auðvelt og gerði ég allt til að fela það fyrir jafnöldrum. Ég rakaði hárið fyrst af mér þegar ég var 18 ára sem mér fannst vera léttir. Ég var alltaf með mjög flippaða hárgreiðslu þar sem skallablettirnir réðu því hvernig hárið var greitt á hverjum tima. Þegar ég gekk með börnin mín lagaðist blettaskallinn þannig að þetta virðist vera líka hormónatengt og þegar ég var með þau á brjósti fékk ég aftur blettaskalla. Það hafði klárlega áhrif á blettaskallan hvernig mér leið. Eftir barneignirnar var skjaldkirtillinn greindur vanvirkur, krónískt en ég held það sé einnig algengur sjúkdómur hjá fólki með blettaskalla. Svo kom mikið stresstímabil og ég missti allt hár, augnabrúnir og augnhár. Ég er búin að fara í annsi margar ólíkar meðferðir í gegnum æfina sem halda skallanum niðri en svo ákvað ég að vera bara sátt við þetta og vera ekki að eyða tíma í að fara vikulega til læknis allt mitt líf. Sem betur fer er ég sátt við sjálfa mig hárlausa. Ég nota oftast klút eða húfu því það er kalt og á sumrin er ég með freknugrímu og skjannahvítan haus. Svo er ég aðeins byrjuð að leika mér með hárkollur sem ég átti mjög erfitt með að nota áður.

  Ég bjó í stórborg erlendis og þar sá maður meira af fallegum skollóttum konum sem víluðu ekki fyrir sér að flagga hárleysinu. Jafnvel búðakonu í tískuvöruverslun.
  Vona að það komi sá dagur hér þar sem það þykir jafn sjálfsagt hér að búðakonan sé skollótt eins og búðarmaðurinn. Það þurfi ekki að setja upp hárkollu til að sækja um viss störf.
  Ég held að til þess að það verði þurfi konur líka að vera óhræddari við að sína skallan eins og karlarnir.

  Takk fyrir gott framtak

  Kv
  Brynja

  • blettaskalli sagði:

   sæl Brynja og takk fyrir að deila þessu með okkur. Það er einmitt von okkar að fleiri komi fram, segi sínar sögur þannig að þetta hætti að vera svona mikið feimnismál. Allir eiga rétt á því að vera eins og þeir vilja, hvort sem það er að ganga með beran skallann eða vera með flotta hárkollu.

   kv.
   Helga og Begga

 4. Unnur Helga Snorradóttir sagði:

  Frábært framtak hjá ykkur stelpur 😀 Ég hef verið að fá 2-4 misstóra skallabletti síðastliðin 12.ár. Læknarnir vilja meina að það sé kvíði og stress sem valdi þessu, ég hef fengið stera sprautur sem hefur gengið misvel. Ég hef verið að ganga með húfu þegar ég hef verið verst og svo er alveg nauðsynlegt að reyna halda öðrum hárlokkum fyrir blettunum og þá getur verið mikil kúnst að reyna greiða sér svo maður líti sómasamlega út 😀 Takk fyrir mig og ég segi bara til hamingju með þessa síðu 😀 Kv. Unnur

  • blettaskalli sagði:

   sæl Unnur Helga,
   ég þekki þetta með að greiða yfir skallann!
   Allir vonast eftir lækningu en á meðan er um að gera að lifa sem bestu lífi með þessu,

   bestu kveðjur,
   Helga og Begga

 5. Sigrún Herdísardóttir sagði:

  Þúsund þakkir fyrir þessar sögur! Skrítið en á tímabili hélt ég að mín saga hefði verið þarna þar sem hún var það keimlík annarri reynslusögu. Ég fékk fyrsta blettinn fyrir rúmum 2 árum og var það eiginmaðurinn sem benti mér á hann. Bletturinn var á stærð við tíkall í hvirflinum og blasti vel við, ég fór bara að hlægja og hélt þetta væri grín. En eftir að hafa skoðað hann komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hefði bara verið óheppin þar sem ég hafði 2 dögum áður farið í brunaútkall og farið inn í húsið án hjálms og fékk drullu sem lak úr loftinu á hausinn á mér.
  Eftir langan tíma fór að koma hár í þennan blett og ég hélt að ,,brunabletturinn“ væri loks að fara. En þá fór ég að taka eftir því að kringum blettinn höfðu myndast aðrir skallablettir. Við nánari skoðun á hárgreiðslustofu komu í ljós 7 nýjir blettir, misstóri og mis áberandi. Ég fór suður til Björns Rúnar og fékk greininguna sjálfsofnæmi (ásamt fullt öðru). Ég hafnaði strax allri meðferð og ætla bara að leyfa líkamanum að jafna sig sjálfur. Ég nota í dag mikið af höfuðfötum! Ég er það heppin að vera skildug í vinnunni til að nota derhúfu eða annan höfuðbúnað (lögreglumaður). Ég nota einnig hárpúður og hef gengið það langt að teikna í bletti þegar engin leið er að fela þá! Núna er ég búin að gefast upp í bili á baráttunni og er að bíða eftir að komast suður í hárkollukaup! Ég ákvað strax að fela ekki hármissinn og tala mj opinskátt um hann við fjölskyldumeðlimi, vini, starfsfélaga, á facebook og einnig er ég spurð af ókunnugum!
  Ég á líka frábært fólk og vinkonu sem bíður spennt eftir því að hárið verði allt rakað af mér þar sem hún ætlar með mér og lætur raka sitt af sér í leiðinni 🙂 Það verður sko hárkveðjupartý hjá mér!
  Ég vona að þið verðið áfram jafn dugleg að deila sögum og reynslu, þar sem ,,nýjungar“ eins og ég læra helling af að lesa efnið frá ykkur! ÞÚSUND ÞAKKIR FYRIR MIG!

  • blettaskalli sagði:

   Takk fyrir þetta Sigrún! Já það er ótrúlegt hvað sögurnar eru í raun keimlíkar en þó svo einstakar og flestum finnst okkur við vera ein í heiminum þegar þetta gerist. Fylgstu endilega með hér og á facebook því það fer að líða að fundi í félaginu.
   kveðja,
   Þ. Helga

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s