Fréttatilkynning

eftirfarandi fréttatilkynning var send út í dag á fjölmiðla, húðlæknastofur, hár-og snyrtistofur og fleiri sem við teljum málið varða:

„Ný vefsíða um hármissi

Fyrsta íslenska vefsíðan um sjálfsofnæmissjúkdóminn blettaskalla hefur litið dagsins ljós, http://www.baldvinalopecia.wordpress.com . Talið er að 1% fólks fái þennan sjúkdóm og getur hann fyrst látið á sér kræla hvenær sem er á lífsleiðinni. Blettaskalli er hættu- og sársaukalaus en hefur mikil sálræn áhrif á þann sem fyrir verður. Því er mikilvægt að skapa vettvang þar sem fólk getur leitað sér upplýsinga, aðstoðar og stuðnings annarra í sömu stöðu. Vonir standa til að nýja vefsíðan verði hvati að stofnun félags sem geti beitt sér í kynningarstarfi og réttindabaráttu fólks með þennan sjúkdóm.

Eins og nafnið gefur til kynna lýsir blettaskalli sér í hárlausum blettum í hársverði en getur einnig orsakað algjöran hármissi. Sjúkdómurinn er óútreiknanlegur og þó hann lýsi sér oftast með því að fyrst uppgötvar fólk lítinn hárlausan blett í hárssverðinum er framhaldið mjög misjafnt. Sumir missa fljótlega allt hár en aðrir fá aftur hár í blettinn og kenna sér ekki frekara meins.

Engin örugg lækning er til og engin ein ástæða fyrir því að sumir fá blettaskalla en aðrir ekki. Þó er algengur samnefnari að fólk hefur orðið fyrir áfalli eða verið undir miklu álagi áður en hárlosið hefst. Á fagmáli kallast sjúkdómurinn alopecia og skiptist í þrjú stig; alopecia areata sem eru hárlausir blettir, alopecia totalis er þegar allt höfuðhár fer af og alopecia universalis er þegar fólk missir allt líkamshár.

Stofnendur síðunnar eru Berglind Guðjónsdóttir og Þuríður Helga Jónasdóttir en þær hafa báðar misst hárið að meira eða minna leyti. „

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.