Alopecia í bókum

Ein af mínum uppáhaldsbókum er Barnaeyjan eftir P.C. Jersild. Hún gerist árið 1976 og segir frá ellefu ára strák sem heitir Hlynur. Hann býr í Stokkhólmi með mömmu sinni og á að fara í sumarbúðir á Barnaeyjunni þetta sumar. Það vill hann alls ekki. Hann vill komast að því hver tilgangur lífsins er áður en hann verður kynþroska því hann er sannfærður um að þá verði það orðið of seint. Hann stingur af og eyðir sumrinu í borginni og hittir alls kyns fólk og lendir í ævintýrum. Eina helgina fer hann í bátsferð og kynnist þá Nóru:

 

„Ernir var með konu með sér. Hún hét Nóra og að áliti Hlyns var hún sennilega nær tvítugu en fertugu. Nóra lá næstum allan tímann á maganum á þilfarinu í litlum buxum einum fata og með slæðu um höfuðið.“  (bls. 102)

 

Nokkru síðar tekur hann eftir breytingu:

 

„Þess í stað glápti hann á Nóru. Svaka hár sem hún hafði! Hún hafði verið með klút um höfuðið áðan svo hárið hafði ekki sést. En hún var búin að taka hann af sér núna. Hárið á henni var dökkrautt – purpurarautt? – og í því voru óteljandi lokkar sem stóðu í allar áttir. Alveg svaðaleg afrógreiðsla. Hlynur kunni vel við Nóru. Hún virtist ágæt þótt hún svæfi mest allan tímann.“ (bls. 105-106)

 

Annar mannanna á bátnum hendir Hlyn í vatnið til að stríða honum en Hlynur verður ofsahræddur því hann kunni ekki að synda. En Nóra kemur honum til bjargar og dregur hann upp:

 

„Það var Nóra sem hafði stungið sér og dregið hann upp. Nú sátu þau og héldu hvort utan um annað á einum steinanna. Hann sveið í nefið undan vatninu og hann hnerraði. Nóra strauk honum yfir blautt hárið. Ernir og Bolli stóðu í bátnum. Ernir var mjög reiðilegur en Bolli var með asnalega brosgrettu á andlitinu.

– Mér fannst vera skítalykt af honum, sagði Bolli og benti hikandi á Hlyn.

Hlynur leit á Nóru. Hún var ekki með neitt hár!. Hún var sköllótt eins og sýningarbrúða! Rétt áðan hafði hún verið með rautt lokkaflóð. Nóra flissaði og benti út á vatnið. Þar flaut rauða hárkollan upp við bátshliðina.“ (bls. 108-109)

 

Síðar um sumarið leitar Hlynur til Nóru þegar hann vantar húsaskjól og hún tekur hann heim með sér. Þar tekur hún hárkolluna sem hún hafði verið með í vinnunni af sér og hengir hana með hinum:

 

„…á hárkolluhengi sem fest var fyrir ofan rúmið. Þar voru sex hengi, öll klædd hárkollum, mismunandi að gerð og lit: Hvítt, sítt hár, rautt og krullað, brúnt og krullað, svertingjakrullur og gult hár með fléttum. Nóra sjálf var alveg nauðasköllótt og glansandi á kollinn. Hún leit út eins og marsbúi.“ (bls. 230)

 

Hlynur veltir því fyrir sér hvort hann ætti að fá að prófa eina hárkolluna en spyr fyrst:

 

„ – Er ekki heitt að vera með hárkollu?

– Jú, stundum er eins og maður gangi um með loðhúfu. En ég er vön þessu. Ég hef verið með hárkollu frá því ég var átta ára.

– Átta ára?

–  Ég fékk einhvern óvenjulegan vírussjúkdóm rétt áður en ég byrjaði í skólanum . Hvert einasta hárstrá á skrokknum datt af. Síðan hafa þau ekki vaxið aftur.

Það fór hrollur um Hlyn. Hugsa sér að missa hvert einasta hár um leið og maður átti að byrja í skólanum. Ferlega yrði manni strítt. Skalli! Sýningarbrúða! Sellulósadúkka!

Hann leit á Nóru. Hún var falleg, eiginlega hafði hann aldrei áður séð svona fallega mannveru. Fagurlimuð, mjúk og alveg hárlaus. Það var næstum því eitthvað guðdómlegt við hana. Kannski var hún ekki með neina þarma. Hann þrýsti vanganum að silkipúðanum og reyndi að koma auga á herðablað hennar. Hárlaus manneskja – yrði hún fjaðralaus engill? Engill með bleika leðurblökuvængi?“ (bls. 232)

 

Sagan heldur áfram og Nóra reynist mikilvæg í þroskaferli Hlyns.

 

Þó bókin fjalli um barn er hún skemmtileg lesning fyrir fullorðna, með skemmtilegum karakterum, heimspekilegum pælingum og ekki síst dásamlegum húmor og virðingu fyrir barnssálinni.

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.