Forsíða

Þessi síða er sett upp til að vera vettvangur fyrir fólk sem hefur misst hárið af óþekktum orsökum. Óútskýrður hármissir getur verið mikið áfall og haft mikil áhrif á viðkomandi einstakling. Þar sem erfitt hefur verið að finna lækningu við hármissinum er mikilvægt að þeir einstaklingar sem verða fyrir hármissi geti lært að lifa með sjúkdómnum.

Á þessari síðu verða ýmsar upplýsingar sem varða óútskýrðan hármissi sem oft er kallaður blettaskalli á íslensku. Orðið blettaskalli er þó ekki nógu lýsandi fyrir sjúkdóminn þar sem oft er um algjöran hármissi að ræða og verður því fræðiorðið alopecia notað hér. Alopecia hefur þrjá undirflokka; alopecia areata sem lýsir sér með skallablettum í hársverði, alopecia totalis sem þýðir að viðkomandi missir allt höfuðhár og alopecia universalis sem lýsir sér þannig að öll líkamshár detta af.

Það er von okkar, sem að síðunni standa, að hún geti orðið gagnleg þeim sem eru nýgreindir en einnig þeim sem hafa verið með alopecia í lengri tíma. Ætlun okkar er, meðal annars, að koma á framfæri þeim meðferðum sem boðið er upp á í dag en einnig mögulegum úrlausnum til að lifa með sjúkdómnum.

Við vonumst til þess að fá að heyra í sem flestum vegna þess að með því að deila upplýsingum og fróðleik þá mun þessi síða geta orðið að því gagni sem stefnt er að. Það er oft gott að vita af öðrum sem eru í svipaðri stöðu og því hefur verið stofnuð Facebook síða sem ætluð er sem samskiptasíða. Þar verður hægt að spjalla í lokuðum hóp og  einstaklingar geta miðlað af sinni reynslu og gefið góð ráð.

Það skal tekið fram að þeir sem standa að síðunni eru ekki sérfræðingar á þessu sviði en leitað verður til sérfræðinga varðandi upplýsingar þegar það á við.